Teddi lögga tekur sjálfan sig til kostanna í sjáfsævilegum einleik þar sem ferðast er frá Kínahverfinu í Borgarnesi og alveg út á Ystu Nöf, þar sem hann á heima. Höfundurinn, Theodór Kristinn Þórðarson, betur þekktur sem Teddi lögga, rekur í máli og myndum ýmis atvik í samskiptum sínum við samferðafólk sitt, allt frá barnæsku og fram til vorra daga.
Auk þess að vera í um 40 ár í lögreglunni í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu þá var hann virkur í leikstarfsemi Ungmennafélagsins Skallagríms í tvo áratugi, bæði sem leikari og leikstjóri, fréttaritari Morgunblaðsins frá 1985, einkaflugmaður frá 1990 og hann náði sér einnig í pungaprófið til að geta róið bátnum sínum Haferninum löglega út fjörðinn og veitt sér borgfisk við Þormóð og Grænhólma. Menn og konur, birtast í máli og myndum í verkinu. Teddi bregður sér í hlutverk eftirminnilegra persóna og dregur einnig gamla muni upp úr pokahorninu.
Leikverkið “Farðu á þinn stað” er flutt á vegum Leikfélags Borgarness sem er nýlega endurvakið en það var starfandi á árunum 1942 til 1951. Leikstjóri verksins er Geir Konráð Theodórsson og sýningarstjóri er Eiríkur Þór Theodórsson. Eiginkona Theodórs, María Erla Geirsdóttir aðstoðaði sinn mann við myndvinnslu ofl. Þannig að segja má að vissu leyti sé hér um fjölskylduverk að ræða. Leikverkið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði SSV.
Bókaðu þína miða hér